Monday, December 26, 2011

Matur er mannsins meginn

Loftið ilmar af dásamlegum matarilmi....í ofninum kúrir eldfast mót með dásamlegum krásum grænmetis og kjöts sem bíður þess í ofvæni að verða til og enda í mögum eftirvæntingarfullra sælkera. Á eldarvélarhellunni standa pottarnir og halda vörð um þær dásemdir og gersemar sem þeir innihalda. Kræsingarnar eru í öllum mögulegum litum og innihalda öll helstu næringarefni (og óþarfa næringarefni líka). Kryddjurtirnar í gluggakistunni fylgjast spenntar með og vonast hver og ein þeirra til að fá að spila með í þessari matarsinfóníu. Eftirrétturinn montar sig og þykist þess fullviss að hann sé krúnudjásn veislunnar.  Salatblöðin grænu sem eru fersk og brakandi eru komin í salatskálina og óþreyjufullir gestir, vinir og vandamenn vita að nú styttist í að hin dásamlegu orð ómi „gjörið svo vel, maturinn er tilbúinn“.

Ég er gjörsamlega yfir mig heilluð af mat og matargerð og hef verið það lengi. Ætli ég hafi ekki verið um tíu ára þegar ég tók upp á því að sjá um kvöldmatinn á sunnudögum heima hjá mér. Þá var oft mikið tilraunast og brasað með misgóðum árangri. Fyrstu tilraunirnar í matargerð voru þó hafnar löngu fyrir þann tíma. Ég man eftir því að hafa fengið að útbúa ís handa mömmu og pabba á laugardögum þar sem ég setti ís, þeyttan rjóma, niðursoðna ávexti og fleira gúmmelaði í skálar fyrir stolta og glaða foreldrana. Fljótlega fór að bera á tilraunarstarfsemi í ísgerðinni og einu sinni datt mér í hug að setja vanilludropa út á ísinn hans pabba. Það vakti mikla lukku en þó ekki þá lukku sem þeir áttu að vekja upphaflega. Mikið var hlegið það kvöld og enn þann dag í dag djókar pabbi með vaniluudropana og afþakkar pent vanilludropa á ísinn sinn ef ég er einhverstaðar nálæg þegar ís er í boði. Einu sinni ákvað ég að baka pönnukökur í leyfisleysi. Óhætt er að segja að það séu verstu pönnukökur sem bakaðar hafa verið í sögu mannkyns. Mér fannst ég ægilega sniðug og náði í disney matreiðslubókina og fletti upp pönnukökum. Þá fyrst hófust vandræðin. Hvað þýddi þetta dl, tsk, msk... hvað er 3/4? Ég komst að þeirri niðurstöðu að best væri bara að nota desilítramálið í allt heila klappið og ef það stæði 3/4 þá hlyti það bara að þýða að ég mætti velja hvort ég setti þrjá eða fjóra desilítra. Með þessari aðferð varð skelfilegt pönnukökudeig til sem mamma og bróðir minn sem var nýbyrjaður að læra til kokks fengu svo að aðstoða mig við að steikja. Það var ekki nóg með það að deigið væri í kolvitlausum hlutföllum, ef ég man rétt þá var minnst af hveiti en mest af salti í uppskriftinni, þá notaði ég gróft sjávarsalt í pönnukökurnar. Ég man ennþá hvað þessar tvær eða þrjár pönnukökur sem reynt var að steikja voru ógeðslega vondar og ljótar. Ég mátti þola hrekki og stríðni frá bróður mínum lengi á eftir sem spurði mig í sífellu hvort ég væri nýverið búin að vera að tilraunast í eldhúsinu. Þrátt fyrir þetta atvik í eldhúsinu lét ég ekki deigan síga og hefur margt vatn runnið til sjávar síðan óætu pönnukökurnar voru á boðstólnum. Tilraunir héldu áfram sérstaklega í kringum afmæli mömmu. Aðalsportið var að koma henni á óvart og hún fékk sama símtalið á afmælinu sínu í vinnuna í nokkur ár þar sem ég og oft systir mín líka hringdum og þóttumst vera að vinna verkefni fyrir skólann um kaffivélar og spurðum hana hversu margar skeiðar ætti að setja í kaffivélina og þess háttar. Hún þóttist alltaf ekkert fatta þó hún hafi pottþétt vitað að nú væri sprenging í eldhúsinu og að hún mætti við heimkomu eiga von einkennilegu kaffi og súkkulaðikúlum sem allir krakkar lærðu að gera í heimilisfræði. 
Þetta er meðal þeirra mörgu þátta sem gera mat og matargerð jafn dásamlega sem hún er, þessi félagslega hlið matar. Það eru fáir hlutir í heiminum sem má njóta á jafnmarga vegu og maturinn. Við njótum hans með augunum, nefinu (hvað er betra en matarilmur), snertingu (finnum fyrir áferðinni) og við heyrum í honum (hvernig kjötið og grænmetið snarka á pönnunni og í dásamlegu söngli kökunnar í ofninum). Matur vekur umtal og hann gefur okkur tækifæri til að koma saman. Maturinn er félagslegt lím í samfélagi okkar. Matur er YNDISLEGUR.

Kannski að ég skelli inn þessum gamla félaga mínum uppskrift af súkkulaðikúlum í tilefni stofnunar þessa bloggs. Skelli uppskriftinni hér inn við fyrsta tækifæri.

Svona í gamni og til að ég æfist í að nota þetta blessaða blogg þá ætla ég að skella hérna inn mynd af einni prinsessu sem ég gerði um árið. Greyið varð fórnarlamb mannáts...


No comments:

Post a Comment