Eins og önnur jólabörn þá bíð ég alltaf ægilega spennt eftir jólahaldinu og öllu sem því fylgir. Jólaskrautið, aðventan, pakkarnir.......og síðast en þó ekki síðst maturinn. Á aðfangadag hjá mér var borðað þríréttað. Humarsúpa í forrétt (hættulega góð humarsúpan sú), beef Wellington í aðalrétt með steiktu grænmeti og sparikartöflum með beikoni og fleira gúmmelaði (slef slef). Sumir gætu spurt sig hvað beef Wellington sé, en þetta er nautalaund sem er auk ástar og umhyggju vafin í sveppi og smjördeig og bökuð í ofni, í þetta skipti var hún reyndar líka vafinn með parmaskinku. Þetta er mjög skemmtileg nautasteik og mjög viðeigandi á köldum vetrarkvöldum. Í dessert var svo rjómaís með appelsínulíkjör í og möndlu (vinningurinn stór Celebration konfekt kassi fór ekki til mín). Á jóladag var svo hangikjöt með hefðbundnu meðlæti, Ora-baunum, rauðkáli og uppstúf með kartöflum. Á minn disk rataði að vísu einvörðungu meðlætið vegna þess að hangikjöt með öllu sínu salti á ekki samleið með mínum skrokki. Ég var búin að segja frá matnum á annan í jólum í fyrri bloggfærslu. Nú er það bara að hlakka til næstu stórhátíðar þar sem ég ætla í fyrsta skipti að elda hamborgarahrygg með öllu tilheyrandi.
Mínir vinir og vandamenn vita alveg hvað fellur í kramið hjá mér hvað varðar jólagjafir. Þessi jólin fékk ég eitt og annað í eldhúsið má þar nefna kökuhníf ásamt 50 krónum (hún amma er svo séð og ætlar sko ekki að skera á vinaböndin), svo fékk ég svona asískar mottur, prjóna og skálar sem verða vafalaust mikið notaðar við sushiát. Ég fékk líka svona tagine pott úr leir en þeir eru mikið notaðir í Marókóskri matargerð. Ég hlakka ekkert smá til að vígja hann enda var hann búin að vera á óskalistanum síðan í sumar. Að sjálfsögðu mun ég blogga allt um það þegar að vígslunni kemur. Einnig fékk ég tvær matreiðslubækur, Léttir réttir Hagkaups eftir Rikku og Náttúruleg fegurð eftir Arndísi Sigurðardóttur. Hin síðarnefnda er kannski ekki beint matreiðslubók en í henni eru uppskriftir af hinum ýmsu snyrtivörum sem maður getur gert heima. Það er fátt skemmtilegra heldur en þegar maður getur látið tvö áhugamál mætast í þessu tilviki fíkn mína í snyrtivörur ásamt ástríðu minni fyrir matargerð. Ég er nú þegar búin að gera hárrnæringu og andlitsmaska úr bókinni. Ég var ánægð með bæði fyrir utan að hárnæringin var helst til feit (vægast sagt) og eftir fimm hárþvotta hið minnsta er ég ennþá til hársins eins og hellisbúakelling, ég bíð bara eftir því að verða lamin með kylfu og dregin inn í helli (húla búka). Maskinn sem ég gerði fyrir andlitið var mjög notalegur og jóló með vanilludropum og kanil og slíku fíneríi. Ég er bara eins og barnsrass í framan eftir þá meðferð. Ég mæli eindregið með snyrtibókinni.
 |
Hárnæringin tilbúin í slaginn. Ofureinföld jafnmikið af kókosolíu og hunangi og brætt saman. |
 |
Innihaldsefnin í hárnæringu og andlitsmaska. |
 |
Kvöldmaturinn í gær úr Hagkaupsbókinni. Kjúlli með hvítvínssósu og beikon og sveppum. Það var mjög mikil sósa afgangs stefni á að gera súpu úr henni namm namm. |
Hagkaupsbókin er gjörsamlega dásamleg....Ég er búin að flétta yfir hana alla og ég bara finn ekki uppskrift sem ég hef ekki áhuga á að prufa. Nú þegar er ég búin að prófa að gera eina sem í bókinni ber heitið „Kjúklingabitar í hvítvínssósu“ og er á bls 105. Ég var ekki alveg nógu ánægð með útkomuna og það vantaði svona herslumuninn einhvernveginn. Það var svo mikil sósa afgangs að hún nægir í grunn í góða fiskisúpu sem ég ætla að vinda mér í að skella í. Ef vel gengur með það kem ég með uppskrift hið fyrsta.
No comments:
Post a Comment