Ég veit ekki hvort margir átti sig á því hversu frábært hráefni kalkúnabringan er. Úff hvar á ég að byrja kalkúnabringa er með því besta sem ég fæ (hvað þá þegar hún hefur verið sett í beikongalla og steikt og bökuð með rauðvíni, litlum sveppum og perlulauk) og hún gefur annars konar steikum til dæmis nauta eða svínasteikum ekki neitt eftir, nema þó síður sé (vatn í munninn). Kalkúnabringan eins og ég elda hana á fátt sameiginlegt með heilsteiktum kalkúna enda býður hin svo mjög hentuga stærð bringunnar upp á fjölmarga möguleika. Á annan í jólum eldaði ég tvær dásamlegar kalkúnabringur handa fjölskyldunni og óhætt er að segja að þær hafi runnið vel niður í matargestina því þær kláruðust báðar upp til agna á örskot stundu. Mig langar að deila með ykkur uppskrift af kalkúnabringum sem fá örgustu nautakjöts og lambakjötsmenn til að fella tár af gleði vegna undrunar og alsælu. Uppskriftin er upphaflega komin úr Gestgjafanum, fyrsta tölublaði frá árinu 2010. Vá maður þvílík byrjun á árinu hjá Gestgjafanum. Þessa uppskrift hef ég lagað nokkrum sinnum með smá breytingum og alltaf með glymrandi góðum árangri. Því miður gleymdi ég að taka myndir af herlegheitunum enda er ég ennþá að læra á þetta bloggdæmi allt saman. Þeir sem eru æstir í að fá að skoða myndir af einhverju svipuðu er bent á ofangreint tölublað Gestgjafans bls 41.
Beikonvafðar kalkúnabringur í rauðvínssósu með perlulauk og sveppum f. 4-6
2 kalkúnabringur eða ein stór (mér finnst skemmtilegast að hafa eina stóra).
Pipar
Beikon (að minnsta kosti einn stór pakki, þannig að það sé nóg til að hylja alla bringuna).
Olía
20 perlulaukar, afhýddir.
20 sveppir (reyndu að velja litla sveppi, það er svo skemmtilegt).
3 dl rauðvín (ég myndi kaupa belju af rauðvíni, þá er hægt að hafa svo mikið gaman við átið og eftir á...ekki það að ég sé að hvetja til ofdrykkju hahaha).
1 msk balsamedik
2-3 greinar af fersku timíani eða 1 tsk þurrkuð (miklu betra að nota ferskar og að sjálfsögðu. Þær setja einnig svo skemmtilega stemningu í matinn svona sveitó fíling).
2 lárviðarlauf þurrkuð (kannski væri gaman að prufa að nota fersk, ég hef þó ekki prufað það sjálf).
1,5 msk tómatmauk (puré)
1,5 dl kalkúnasoð eða kjúklingasoð (það má alveg nota vatn og tening).
sósujafnari (ég nota maizena)
30 gr kalt smjör í teningum (má sleppa)
2 msk fersk steinselja smátt söxuð (í upphaflegu uppskriftinni segir að það megi sleppa þessu, ég myndi samt sjálf segja að steinseljan sé algjörlega ómissandi).
Aðferð:
Piprið kalkúnabringurnar og vefjið beikoni utan um þær og festið með tannstönglum. Steikið bringurnar á vel heitri pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið þannig að kjötið lokist. Bætið perlulauk og sveppum við og steikið áfram í ca 1 mínútu. Hellið rauðvíni, ediki, tímíani, lárviðarlaufum og tómatmauki og setjið pönnuna inn í 180°C ofn í 25- 30 mín (eldunartíminn er misjafn eftir stærð bringna, hér fer best á því ef bringurnar eiga að vera frábærar að notast við kjöthitamæli, þegar mælirinn sýnir 65° er bringan tilbúin (heimild: kalkunn.is)). Takið pönnuna úr ofninum og setjið á eldavélina, bætið við soði og þykkið með sósujafnara. Takið pönnuna af hellunni og bætið við smjörinu og leyfið því að bráðna út í sósuna. Stráið steinselju yfir allan réttinn og berið fram með kartöflumús eða brúnuðum kartöflum og blönduðu grænmeti.
Þegar ég geri sósuna tek ég bringuna úr pönnunni á meðan og leyfi henni að hvíla sig undir álpappír. Þegar sósan er tilbúin er bringan skorin í fallegar sneiðar og setta út í pönnuna aftur. Það er voða fallegt og þægilegt í framreiðslu.
Ps: ertu í megrun?? Í guðs bænum ekki sleppa beikoninu. Það er nefnilega falinn galdur í beikoninu sem gerir bringurnar safaríkar og djúsi auk þess sem þær draga smá í sig reykta bragðið af beikoninu sem tónar ljómandi vel við rauðvínssósuna. Taktu beikonið heldur af eftir eldun og slepptu því að borða það.
....læt heyra í mér fljótlega með dessertinn en hann var vanillubollakökur með hvítu smjörkremi (sem systir mín bakaði og ég skreytti). Látið ykkur dreyma mat þangað til.