Thursday, December 29, 2011

Jólamatur og jólagjafir kjellunnar

Eins og önnur jólabörn þá bíð ég alltaf ægilega spennt eftir jólahaldinu og öllu sem því fylgir. Jólaskrautið, aðventan, pakkarnir.......og síðast en þó ekki síðst maturinn. Á aðfangadag hjá mér var borðað þríréttað. Humarsúpa í forrétt (hættulega góð humarsúpan sú), beef Wellington í aðalrétt með steiktu grænmeti og sparikartöflum með beikoni og fleira gúmmelaði (slef slef). Sumir gætu spurt sig hvað beef Wellington sé, en þetta er nautalaund sem er auk ástar og umhyggju vafin í sveppi og smjördeig og bökuð í ofni, í þetta skipti var hún reyndar líka vafinn með parmaskinku. Þetta er mjög skemmtileg nautasteik og mjög viðeigandi á köldum vetrarkvöldum. Í dessert var svo rjómaís með appelsínulíkjör í og möndlu (vinningurinn stór Celebration konfekt kassi fór ekki til mín). Á jóladag var svo hangikjöt með hefðbundnu meðlæti, Ora-baunum, rauðkáli og uppstúf með kartöflum. Á minn disk rataði að vísu einvörðungu meðlætið vegna þess að hangikjöt með öllu sínu salti á ekki samleið með mínum skrokki. Ég var búin að segja frá matnum á annan í jólum í fyrri bloggfærslu. Nú er það bara að hlakka til næstu stórhátíðar þar sem ég ætla í fyrsta skipti að elda hamborgarahrygg með öllu tilheyrandi.

Mínir vinir og vandamenn vita alveg hvað fellur í kramið hjá mér hvað varðar jólagjafir. Þessi jólin fékk ég eitt og annað í eldhúsið má þar nefna kökuhníf ásamt 50 krónum (hún amma er svo séð og ætlar sko ekki að skera á vinaböndin), svo fékk ég svona asískar mottur, prjóna og skálar sem verða vafalaust mikið notaðar við sushiát. Ég fékk líka svona tagine pott úr leir en þeir eru mikið notaðir í Marókóskri matargerð. Ég hlakka ekkert smá til að vígja hann enda var hann búin að vera á óskalistanum síðan í sumar. Að sjálfsögðu mun ég blogga allt um það þegar að vígslunni kemur. Einnig fékk ég tvær matreiðslubækur, Léttir réttir Hagkaups eftir Rikku og Náttúruleg fegurð eftir Arndísi Sigurðardóttur. Hin síðarnefnda er kannski ekki beint matreiðslubók en í henni eru uppskriftir af hinum ýmsu snyrtivörum sem maður getur gert heima. Það er fátt skemmtilegra heldur en þegar maður getur látið tvö áhugamál mætast í þessu tilviki fíkn mína í snyrtivörur ásamt ástríðu minni fyrir matargerð. Ég er nú þegar búin að gera hárrnæringu og andlitsmaska úr bókinni. Ég var ánægð með bæði fyrir utan að hárnæringin var helst til feit (vægast sagt) og eftir fimm hárþvotta hið minnsta er ég ennþá til hársins eins og hellisbúakelling, ég bíð bara eftir því að verða lamin með kylfu og dregin inn í helli (húla búka). Maskinn sem ég gerði fyrir andlitið var mjög notalegur og jóló með vanilludropum og kanil og slíku fíneríi. Ég er bara eins og barnsrass í framan eftir þá meðferð. Ég mæli eindregið með snyrtibókinni.

Hárnæringin tilbúin í slaginn. Ofureinföld jafnmikið af kókosolíu og hunangi og brætt saman.

Innihaldsefnin í hárnæringu og andlitsmaska.
Kvöldmaturinn í gær úr Hagkaupsbókinni. Kjúlli með hvítvínssósu og beikon og sveppum. Það var mjög mikil sósa afgangs stefni á að gera súpu úr henni namm namm.

Hagkaupsbókin er gjörsamlega dásamleg....Ég er búin að flétta yfir hana alla og ég bara finn ekki uppskrift sem ég hef ekki áhuga á að prufa. Nú þegar er ég búin að prófa að gera eina sem í bókinni ber heitið „Kjúklingabitar í hvítvínssósu“ og er á bls 105. Ég var ekki alveg nógu ánægð með útkomuna og það vantaði svona herslumuninn einhvernveginn. Það var svo mikil sósa afgangs að hún nægir í grunn í góða fiskisúpu sem ég ætla að vinda mér í að skella í. Ef vel gengur með það kem ég með uppskrift hið fyrsta.

Tuesday, December 27, 2011

Hátíð kalkúns og friðar...ég meina ljóss og friðar

Ég veit ekki hvort margir átti sig á því hversu frábært hráefni kalkúnabringan er. Úff hvar á ég að byrja kalkúnabringa er með því besta sem ég fæ (hvað þá þegar hún hefur verið sett í beikongalla og steikt og bökuð með rauðvíni, litlum sveppum og perlulauk) og hún gefur annars konar steikum til dæmis nauta eða svínasteikum ekki neitt eftir, nema þó síður sé (vatn í munninn). Kalkúnabringan eins og ég elda hana á fátt sameiginlegt með heilsteiktum kalkúna enda býður hin svo mjög hentuga stærð bringunnar upp á fjölmarga möguleika. Á annan í jólum eldaði ég tvær dásamlegar kalkúnabringur handa fjölskyldunni og óhætt er að segja að þær hafi runnið vel niður í matargestina því þær kláruðust báðar upp til agna á örskot stundu. Mig langar að deila með ykkur uppskrift af kalkúnabringum sem fá örgustu nautakjöts og lambakjötsmenn til að fella tár af gleði vegna undrunar og alsælu. Uppskriftin er upphaflega komin úr Gestgjafanum, fyrsta tölublaði frá árinu 2010. Vá maður þvílík byrjun á árinu hjá Gestgjafanum. Þessa uppskrift hef ég lagað nokkrum sinnum með smá breytingum og alltaf með glymrandi góðum árangri. Því miður gleymdi ég að taka myndir af herlegheitunum enda er ég ennþá að læra á þetta bloggdæmi allt saman. Þeir sem eru æstir í að fá að skoða myndir af einhverju svipuðu er bent á ofangreint tölublað Gestgjafans bls 41.

Beikonvafðar kalkúnabringur í rauðvínssósu með perlulauk og sveppum f. 4-6
2 kalkúnabringur eða ein stór (mér finnst skemmtilegast að hafa eina stóra).
Pipar
Beikon (að minnsta kosti einn stór pakki, þannig að það sé nóg til að hylja alla bringuna).
Olía
20 perlulaukar, afhýddir.
20 sveppir (reyndu að velja litla sveppi, það er svo skemmtilegt).
3 dl rauðvín (ég myndi kaupa belju af rauðvíni, þá er hægt að hafa svo mikið gaman við átið og eftir á...ekki það að ég sé að hvetja til ofdrykkju hahaha).
1 msk balsamedik
2-3 greinar af fersku timíani eða 1 tsk þurrkuð (miklu betra að nota ferskar og að sjálfsögðu. Þær setja einnig svo skemmtilega stemningu í matinn svona sveitó fíling).
2 lárviðarlauf þurrkuð (kannski væri gaman að prufa að nota fersk, ég hef þó ekki prufað það sjálf).
1,5 msk tómatmauk (puré)
1,5 dl kalkúnasoð eða kjúklingasoð (það má alveg nota vatn og tening).
sósujafnari (ég nota maizena)
30 gr kalt smjör í teningum (má sleppa)
2 msk fersk steinselja smátt söxuð (í upphaflegu uppskriftinni segir að það megi sleppa þessu, ég myndi samt sjálf segja að steinseljan sé algjörlega ómissandi).

Aðferð:
Piprið kalkúnabringurnar og vefjið beikoni utan um þær og festið með tannstönglum. Steikið bringurnar á vel heitri pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið þannig að kjötið lokist. Bætið perlulauk og sveppum við og steikið áfram í ca 1 mínútu. Hellið rauðvíni, ediki, tímíani, lárviðarlaufum og tómatmauki og setjið pönnuna inn í 180°C ofn í 25- 30 mín (eldunartíminn er misjafn eftir stærð bringna, hér fer best á því ef bringurnar eiga að vera frábærar að notast við kjöthitamæli, þegar mælirinn sýnir 65° er bringan tilbúin (heimild: kalkunn.is)). Takið pönnuna úr ofninum og setjið á eldavélina, bætið við soði og þykkið með  sósujafnara. Takið pönnuna af hellunni og bætið við smjörinu og leyfið því að bráðna út í sósuna. Stráið steinselju yfir allan réttinn og berið fram með kartöflumús eða brúnuðum kartöflum og blönduðu grænmeti.
Þegar ég geri sósuna tek ég bringuna úr pönnunni á meðan og leyfi henni að hvíla sig undir álpappír. Þegar sósan er tilbúin er bringan skorin í fallegar sneiðar og setta út í pönnuna aftur. Það er voða fallegt og þægilegt í framreiðslu.


Ps: ertu í megrun?? Í guðs bænum ekki sleppa beikoninu. Það er nefnilega falinn galdur í beikoninu sem gerir bringurnar safaríkar og djúsi auk þess sem þær draga smá í sig reykta bragðið af beikoninu sem tónar ljómandi vel við rauðvínssósuna. Taktu beikonið heldur af eftir eldun og slepptu því að borða það.

....læt heyra í mér fljótlega með dessertinn en hann var vanillubollakökur með hvítu smjörkremi (sem systir mín bakaði og ég skreytti). Látið ykkur dreyma mat þangað til.

Monday, December 26, 2011

Matur er mannsins meginn

Loftið ilmar af dásamlegum matarilmi....í ofninum kúrir eldfast mót með dásamlegum krásum grænmetis og kjöts sem bíður þess í ofvæni að verða til og enda í mögum eftirvæntingarfullra sælkera. Á eldarvélarhellunni standa pottarnir og halda vörð um þær dásemdir og gersemar sem þeir innihalda. Kræsingarnar eru í öllum mögulegum litum og innihalda öll helstu næringarefni (og óþarfa næringarefni líka). Kryddjurtirnar í gluggakistunni fylgjast spenntar með og vonast hver og ein þeirra til að fá að spila með í þessari matarsinfóníu. Eftirrétturinn montar sig og þykist þess fullviss að hann sé krúnudjásn veislunnar.  Salatblöðin grænu sem eru fersk og brakandi eru komin í salatskálina og óþreyjufullir gestir, vinir og vandamenn vita að nú styttist í að hin dásamlegu orð ómi „gjörið svo vel, maturinn er tilbúinn“.

Ég er gjörsamlega yfir mig heilluð af mat og matargerð og hef verið það lengi. Ætli ég hafi ekki verið um tíu ára þegar ég tók upp á því að sjá um kvöldmatinn á sunnudögum heima hjá mér. Þá var oft mikið tilraunast og brasað með misgóðum árangri. Fyrstu tilraunirnar í matargerð voru þó hafnar löngu fyrir þann tíma. Ég man eftir því að hafa fengið að útbúa ís handa mömmu og pabba á laugardögum þar sem ég setti ís, þeyttan rjóma, niðursoðna ávexti og fleira gúmmelaði í skálar fyrir stolta og glaða foreldrana. Fljótlega fór að bera á tilraunarstarfsemi í ísgerðinni og einu sinni datt mér í hug að setja vanilludropa út á ísinn hans pabba. Það vakti mikla lukku en þó ekki þá lukku sem þeir áttu að vekja upphaflega. Mikið var hlegið það kvöld og enn þann dag í dag djókar pabbi með vaniluudropana og afþakkar pent vanilludropa á ísinn sinn ef ég er einhverstaðar nálæg þegar ís er í boði. Einu sinni ákvað ég að baka pönnukökur í leyfisleysi. Óhætt er að segja að það séu verstu pönnukökur sem bakaðar hafa verið í sögu mannkyns. Mér fannst ég ægilega sniðug og náði í disney matreiðslubókina og fletti upp pönnukökum. Þá fyrst hófust vandræðin. Hvað þýddi þetta dl, tsk, msk... hvað er 3/4? Ég komst að þeirri niðurstöðu að best væri bara að nota desilítramálið í allt heila klappið og ef það stæði 3/4 þá hlyti það bara að þýða að ég mætti velja hvort ég setti þrjá eða fjóra desilítra. Með þessari aðferð varð skelfilegt pönnukökudeig til sem mamma og bróðir minn sem var nýbyrjaður að læra til kokks fengu svo að aðstoða mig við að steikja. Það var ekki nóg með það að deigið væri í kolvitlausum hlutföllum, ef ég man rétt þá var minnst af hveiti en mest af salti í uppskriftinni, þá notaði ég gróft sjávarsalt í pönnukökurnar. Ég man ennþá hvað þessar tvær eða þrjár pönnukökur sem reynt var að steikja voru ógeðslega vondar og ljótar. Ég mátti þola hrekki og stríðni frá bróður mínum lengi á eftir sem spurði mig í sífellu hvort ég væri nýverið búin að vera að tilraunast í eldhúsinu. Þrátt fyrir þetta atvik í eldhúsinu lét ég ekki deigan síga og hefur margt vatn runnið til sjávar síðan óætu pönnukökurnar voru á boðstólnum. Tilraunir héldu áfram sérstaklega í kringum afmæli mömmu. Aðalsportið var að koma henni á óvart og hún fékk sama símtalið á afmælinu sínu í vinnuna í nokkur ár þar sem ég og oft systir mín líka hringdum og þóttumst vera að vinna verkefni fyrir skólann um kaffivélar og spurðum hana hversu margar skeiðar ætti að setja í kaffivélina og þess háttar. Hún þóttist alltaf ekkert fatta þó hún hafi pottþétt vitað að nú væri sprenging í eldhúsinu og að hún mætti við heimkomu eiga von einkennilegu kaffi og súkkulaðikúlum sem allir krakkar lærðu að gera í heimilisfræði. 
Þetta er meðal þeirra mörgu þátta sem gera mat og matargerð jafn dásamlega sem hún er, þessi félagslega hlið matar. Það eru fáir hlutir í heiminum sem má njóta á jafnmarga vegu og maturinn. Við njótum hans með augunum, nefinu (hvað er betra en matarilmur), snertingu (finnum fyrir áferðinni) og við heyrum í honum (hvernig kjötið og grænmetið snarka á pönnunni og í dásamlegu söngli kökunnar í ofninum). Matur vekur umtal og hann gefur okkur tækifæri til að koma saman. Maturinn er félagslegt lím í samfélagi okkar. Matur er YNDISLEGUR.

Kannski að ég skelli inn þessum gamla félaga mínum uppskrift af súkkulaðikúlum í tilefni stofnunar þessa bloggs. Skelli uppskriftinni hér inn við fyrsta tækifæri.

Svona í gamni og til að ég æfist í að nota þetta blessaða blogg þá ætla ég að skella hérna inn mynd af einni prinsessu sem ég gerði um árið. Greyið varð fórnarlamb mannáts...